Fótbolti

Mourinho svarar Wenger fullum hálsi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Jose Mourinho nýtti tækifærið og svaraði Arsene Wenger fullum hálsi vegna ummæla þess fyrrnefnda fyrr í vikunni.

Málið snýst um rauðu spjöldin sem leikmenn Real fengu gegn Ajax í Meistaradeildinni í vikunni. Knattspyrnusamband Evrópu rannsakar nú hvort refsa beri þeim sem og þremur öðrum, þeirra á meðal Mourinho, fyrir að hafa fengið spjöldin viljandi.

Wenger sagði þetta atvikið hræðilegt fyrir íþróttina og að hegðunin væri algerlega óásættanleg.

„Hann ætti frekar að útskýra fyrir stuðningsmönnum Arsenal af hverju hann hefur ekki unnið einn einasta titil síðan 2005," sagði Mourinho í samtali við The Sun í dag.

„Í stað þess að tala um Real Madrid ætti hr. Wenger frekar að tala um Arsenal og útskýra hvernig liðið fór að því að tapa 2-0 fyrir liði sem er að spila í fyrsta sinn í Meistaradeild Evrópu."

„Þessi saga um ungu krakkana er orðin ansi þreytt. Sagna, Clichy, Walcott, Fabregas, Song, Nasri, Van Persie og Arshavin eru ekki krakkar. Þetta eru allt góðir leikmenn."

Þeim Mourinho og Wenger elduðu oft grátt silfur saman þegar að Mourinho var stjóri Chelsea og ljóst að lítið hefur breyst síðan þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×