Erlent

Breska veðurstofan fór yfir nýlegar rannsóknir: Áhrif manna á hlýnun jarðar æ skýrari

Barn í Sómalíu nær í vatn á brúsa úr pollum sem mynduðust eftir að regnskúr gerði. nordicphotos/AFP
Barn í Sómalíu nær í vatn á brúsa úr pollum sem mynduðust eftir að regnskúr gerði. nordicphotos/AFP
Breska veðurstofan segir sterkari vísbendingar komnar fram um áhrif manna á loftslagsbreytingar heldur en þegar síðasta loftslagsskýrsla Sþ var gefin út. Í síðustu viku birtu John Stott og félagar hans hjá bresku veður-stofunni grein í vísindatímariti þar sem þeir leggja mat á rannsóknir, sem gerðar hafa verið á síðustu árum og birtar eftir að skýrsla loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna kom út árið 2007.

„Það sem þessi rannsókn sýnir er að vísbendingar hafa styrkst um mannleg áhrif á loftslag jarðar,“ er haft eftir Stott á fréttasíðu breska ríkisútvarpsins BBC. Nokkrar efasemdir hafa gert vart við sig síðustu mánuði um áreiðanleika loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna.

Fræðimenn veðurstofunnar bresku fóru yfir rannsóknir vísindamanna á margvíslegum veðurfarsbreytingum sem orðið hafa, svo sem hlýnun bæði loftslags og sjávar, breytingar á úrkomumynstri víðs vegar um jörðina, breytingar á seltu sjávar og sumarbráðnun íss á Norður-skautinu.

Spurt var hvort rekja mætti þessar breytingar til náttúrulegra orsaka, svo sem eldgosa eða áhrifa frá sólu. Ef náttúrulegar orsakir fundust ekki, þá var spurt hvort vísbendingar væru um að starfsemi manna væri um að kenna.

„Vísindin leiða í ljós að breytingar á heimsvísu eru stöðugar og bera þess greinileg merki að útblástur gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á þar hlut að máli,“ er haft eftir Stott á vefsíðu bresku veðurstofunnar, þar sem niðurstöðurnar eru kynntar.

Stott segir þó erfiðara en áður var talið að sýna fram á tengsl almennra loftslagsbreytinga við einstaka öfgar í veðurfari, svo sem flóð, þurrka og fárviðri. - gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×