Viðskipti innlent

Tortíming á orðstír Íslands stoppar IceCell

Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að afturkalla starfsleyfi IceCell fyrir uppsetningu á farsímakerfi á Íslandi. IceCell segir að tortíming á orðstír Íslands hafi gert félaginu ómögulegt að fjármagna þetta verkefni.

Í úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunnar segir að fyrir liggur að IceCell hefur ekki staðið við skilyrði og skuldbindingar þær sem í tíðniheimildinni felast um uppbyggingu kerfisins og tímamörk þar að lútandi. En samkvæmt tíðniheimildinni átti 1. áfanga uppbyggingarinnar að vera lokið 28. desember 2008.

Þá hefur IceCell heldur ekki staðið við önnur tímamörk sem sett hafa verið af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem komið hefur verið á móts við fyrirtækið varðandi uppbyggingarhraða farsímanetsins og fjölda þeirra senda sem krafist hefur verið uppsetningu á...þar sem kveðið var á um uppsetningu á 40 sendum fyrir 15. ágúst 2009, né eigin framkvæmdaráætlun fyrirtækisins, dags. 27. nóvember 2009, en samkvæmt henni átti uppsetningu 10 senda að vera lokið fyrir 1. janúar 2010 og 40 senda fyrir 1. apríl 2010, sbr. úttekt Póst- og fjarskiptastofnunar dags. 25. janúar s.l., sem vikið er að hér að ofan.

Það er álit Póst- og fjarskiptastofnunar að stofnunin hafi sýnt mikla biðlund og gengið eins langt og lög standa til, í því skyni að koma til móts við þarfir IceCell og möguleika fyrirtækisins til að standa við tímamörk um uppbyggingu farsímanetsins.

Í ljósi alls þessa telur stofnunin að litlar sem engar líkur séu nú á því að fyrirtækið geti staðið við skilyrði tíðniheimildarinnar og gildi þá einu þótt slakað yrði á þeim kröfum um uppbygginu og útbreiðslu farsímanets fyrirtækisins sem nú er að finna í tíðniheimildinni. Ljóst er einnig að jafnræði aðila á markaði kann að vera skert ef gengið yrði lengra en nú þegar hefur verið gert varðandi tilslakanir á upprunalegum kröfum um uppbyggingu farsímanets fyrirtækisins.

„Fjármálakreppan á Íslandi hefur spillt áformum okkar frá upphafi. Uppbygging IceCell krefst 14,25 milljóna evra samkvæmt útreikningum okkar. Þar sem uppbygging farsímanets er þekkt viðskiptaverkefni á heimsvísu, vanmat ég mikið þann tíma sem þarf til að fjármagna IceCell svo vel sé," segir í svarbréfi IceCell við athugasemdum Póst- og fjarskiptastofnunnar.

„Tækniskipulagið er eiginlega tilbúið en fjármögnunin hefur verið algerlega frosin í 2 ár einfaldlega vegna þess að alheimsfjármálakreppan hefur tortímt orðstír Íslands í heiminum. Nær enginn vill eiga viðskipti við Ísland og er það aðalvandamálið. Þeir sem sjá tækifæri á Íslandi hafa fest fé sitt annars staðar og gengið vel en það er vandamál númer tvö."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×