Lífið

Aníta orðuð við Escape to Donegal

Aníta Briem er orðuð við hlutverk í nýrri mynd í stjörnuborginni Hollywood.
Aníta Briem er orðuð við hlutverk í nýrri mynd í stjörnuborginni Hollywood.
Leikkonan Aníta Briem er orðuð við hlutverk í kvikmyndinni Escape to Donegal á vefsíðunni IMDB.com. Myndin ku vera vísindaskáldskapur og persónan sem Aníta er orðuð við nefnist Faith.

Leikstjórinn Jonathan Blitstein hefur komið víða við bakvið tjöldin í kvikmyndabransanum og leikstýrt nokkrum smærri myndum. Breski leikarinn Alan Cumming fer með aðalhlutverkið í Escape to Donegal, en fleiri leikarar hafa ekki verið orðaðir við myndina í bili.

Meðframleiðandi myndarinnar heitir Jeffrey Wetzel og hefur gert góða hluti í Hollywood undanfarið. Hann var aðstoðarleikstjóri mynda á borð við The Hangover, The Book of Eli, I Am Legend og Superman Returns.

Handritið skrifar Chris Minori. Hann er að byrja að hasla sér völl í Hollywood og fer með lítið hlutverk í myndinni Burlesque, með þeim Kristen Bell, Stanley Tucci, Christina Aguilera og fyrrnefndur Allan Cumming í hlutverkum.

Aníta Briem fer með hlutverk í tveimur myndum sem verða frumsýndar á árinu: Hrollvekjan Dylan Dog: Dead of Night og gamanmyndin Everything Will Happen Before You Die. Síðasta mynd Anítu, Journey to the Center of Earth, var vel sótt og halaði inn meira en 100 milljónir dollara í Bandaríkjunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.