Lífið

Selur jakkaföt á daginn og spilar rokktónlist á kvöldin

Guðfinnur segist lána hinum strákunum í For a Minor Reflection jakkaföt þegar mikið stendur til. Þeir senda frá sér plötuna Höldum í átt að óreiðu í dag.
Guðfinnur segist lána hinum strákunum í For a Minor Reflection jakkaföt þegar mikið stendur til. Þeir senda frá sér plötuna Höldum í átt að óreiðu í dag.

„Þetta fer ágætlega saman og gengur mjög vel. Ég er líka með góðan vinnuveitanda sem er til í að koma til móts við mann," segir Guðfinnur Sveinsson.

Mýtan um lattelepjandi listatrefilinn á ekki við í tilfelli Guðfinns, en hann starfar í herrafataversluninni Boss búðin í Kringlunni á daginn þar sem hann klæðir menn upp í glæsileg jakkaföt.

Á kvöldin leikur hann á gítar með hljómsveitinni For a Minor Reflection sem sendir frá sér plötuna Höldum í átt að óreiðu í dag.

Platan er númer tvö í röðinni, en árið 2007 gaf hljómsveitin út plötuna Reistu þig við, sólin er komin á loft.

Guðfinnur segist ekki vera skotspónn hljómsveitarfélaga sinna þrátt fyrir að selja föt sem ríma ekki við tónlistarstefnu For a Minor Reflection, en til glöggvunar hefur tónlistargúrúið Dr. Gunni lýst tónlistinni sem Sigur Rós án söngs.

„Þeir eru aðallega í því að fá jakkaföt hjá mér," segir Guðfinnur. „Þeir eiga ekki jakkaföt og ég þarf stundum að lána þeim þegar það eru útskriftir og svona."

Guðfinnur segir tónlist For a Minor Reflection hafa þróast nokkuð á nýju plötunni.

Lögin eru ekki eins löng og áður ásamt því að skýrara bil sé á milli hörðu og mýkri kafla tónlistarinnar.

„Við vorum í rosalega týpísku póst-rokki með löngum uppbyggingum," segir hann. „Það er gott og blessað en það er skemmtilegt að fara út fyrir kassann."

Hljómsveitin gefur plötuna út sjálf, en sú ákvörðun var tekin vegna þess að strákarnir nenntu ekki að eltast við plötufyrirtækin.

„Við vonuðum fyrst að okkur yrði boðið gull og grænir skógar, en svo hættum við að pæla í því og það er eiginlega skemmtilegra að gefa út sjálfir," segir Guðfinnur. „Það er erfiðara, en það er skemmtilegra að vera sinn eigin herra."

Platan kemur út í Evrópu í haust og þá hyggst hljómsveitin vera ötul við tónleikahald erlendis, eins og hún hefur verið síðustu ár.

„Við ætlum að túra eins mikið og við getum í haust," segir Guðfinnur. „Við munum aðallega einblína á Evrópu en við ætlum líka að fara eitthvað til Bandaríkjanna."

Hér er Myspace-síða For a Minor Reflection. Þar er hægt að hlusta á nokkur lög með sveitinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.