Sport

Wladimir Klitschko: Haye er heigull

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wladimir Klitschko og David Haye.
Wladimir Klitschko og David Haye. Nordic Photos / Bongarts

Hnefaleikakappinn Wladimir Klitschko hefur nú svarað David Haye, Bretanum kokhrausta, fullum hálsi og segir hann vera heigul.

Til stóð að þeir myndu mætast í hringnum síðasta sumar en Haye þurfti að hætta við vegna bakmeiðsla.

Haye hefur þó verið duglegur við að láta þá Klitschko-bræður, Wladimir og Vitali, heyra það en Wladimar svaraði fyrir sig í viðtali við Ring-tímaritið.

„Ég vil frekar berjast við David en Vitali," sagði Klitschko. „Vitali vill líka berjast við hann. David Haye hefur vælt undan mér og hann hefur vælt undan bróður mínum. Hann hefur gagnrýnt allt það sem ég og bróðir minn höfum gert."

„Ég hef áður sagt að ég vilji breyta andliti Haye í pítsu. Nú vil ég breyta því í pítsu með pepperoni, spægipylsu og tómatsósu," bætti Wladimir við.

„Ég er 34 ára gamall og finnst ég vera á hátindi ferilsins. Ég ætla að halda áfram og hef ekkert ákveðið hvenær ég muni hætta. Ég hef heyrt að David Haye ætli að hætta þegar hann verður 31 árs - af því að hann er heigull."

„Ég mun halda áfram í boxi eins lengi og ég hef áhuga á íþróttinni."



Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×