Það er rétt að íslensk stjórnvöld gripu til þeirrar neyðarráðstöfunar að gefa út yfirlýsingu um að íslenskar innistæður væru tryggðar að fullu til að koma í veg fyrir algert hrun á Íslandi. Því má hins vegar ekki gleyma að íslensk stjórnvöld gripu líka til ráðstafana sem vörðu hagsmuni erlendra sparifjáreigenda. Með neyðarlögunum var sparifjáreigendum í Bretlandi og Hollandi tryggður forgangur að erlendu eignasafni Landsbankans. Með þeirri aðgerð virðast breskum og hollenskum sparifjáreigendum hafa verið tryggðar endurheimtur upp á allt að 90% af þeirri upphæð sem þeir höfðu lagt inn á Icesave, án nokkurrar íhlutunar þarlendra stjórnvalda (miðað við áætlun skilanefndar Landsbankans um endurheimtur). Í þessu sambandi verður að benda á að innistæður á Íslandi voru hins vegar aðeins tryggðar í íslenskum krónum og sú trygging var veitt eftir hrun þegar gengisfall hafði orðið á verðmætum þeirra innistæðna.
Mismunandi málsmeðferð er ekki ávísun á mismunun í verðmætum
Sé því haldið fram að mismunun hafi átt sér stað er ekki nóg að benda á að aðilar hafi ekki hlotið sömu málsmeðferð. Fyrir dómstólum verða Bretar og Hollendingar einnig að sýna fram á að þeirra sparifjáreigendum hafi ekki verið tryggð sömu verðmæti og þeim íslensku.
Við nánari skoðun virðist það ekki vera raunin. Tökum dæmi:
Breti sem lagði 10.000 sterlingspund inn á Icesave-reikning í Bretlandi 1. janúar 2008, þegar innlagnir inn á Icesave stóðu í hámarki. Hann ætti nú von á u.þ.b. 9.000 pundum úr þrotabúi Landsbankans vegna íslensku neyðarlaganna. Þessi sparifjáreigandi hefur tapað um 1.000 sterlingspundum og vöxtum á tímabilinu. Þetta væri niðurstaðan hefðu bresk stjórnvöld ekki gripið inn í og greitt Bretanum út innistæðurnar.
Berum þetta nú saman við íslenskan sparifjáreigenda sem lagði sömu upphæð inn á reikning Landsbankans í Reykjavík. Hann lagði inn á sparifjárreikning 10.000 sterlingspund sem breyttust í íslenskar krónur. Þannig var innistæða hans 1.240.000 ISK 1. janúar 2008. Þessi innistæða hans hefur borið almenna sparifjárvexti frá þeim tíma og stendur nú í u.þ.b. 1.370.000 ISK. Sé litið til verðmætis þessara króna er augljóst að raunverðmæti þeirra í t.d. sterlingspundum eða annarri mynt á EES-svæðinu er langt undir þeim verðmætum sem breskum sparifjáreigendum voru tryggð með neyðarlögunum sem gáfu þeim forgang í erlendar eigur Landsbankans. Á núverandi gengi fengi íslenski sparifjáreigandinn t.d. aðeins um 6.600 sterlingspund fyrir krónueign sína.
Þrátt fyrir ólíka málsmeðferð er ekki augljóst að dómari muni komast að þeirri niðurstöðu að sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi hafi verið órétti beittir. Enda virðist sem þeim hafi í raun verið tryggð meiri verðmæti út úr bankahruninu en sparifjáreigendum á Íslandi.


