Innlent

Tónlistarhátíð í Galtalæk - Engin Eldborg

Að sögn lögreglu gekk hátíðin í Galtalæk vel fyrir sig.
Að sögn lögreglu gekk hátíðin í Galtalæk vel fyrir sig.

Engin líkamsárás hefur verið kærð eftir tónlistarhátíð í Galtalæk sem fór þar fram um helgina. Um 5000 manns hlýddu á tónleika Scooter en að sögn lögreglu fór hátíðin vel fram - betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona.

„Þetta var engin Eldborg," sagði lögreglumaður á Hvolsvelli þegar Vísir spurði út hvernig tónlistarhátíðin hefði gengið um helgina. Engin líkamsárás hefur verið kærð, eða nauðganir, og var aðeins einn sem gisti fangageymslur - að eigin ósk reyndar, samkvæmt lögreglunni.

Tólf voru teknir fyrir ölvunarakstur og ellefu voru stöðvaðir áður en þeir keyrðu út af svæðinu - ryðgaðir, eins og lögreglan orðar það, en þá eru menn undir mörkum en samt vart hæfir til að keyra.

Lögreglumaðurinn sem Vísir ræddi við segir hátíðina hafa gengið vonum framar - engin Eldborg, enda sú hátíð löngu orðin alræmd í sögu íslenskra útihátíða, þar sem skynsemin vék fyrir fíkniefnavímunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×