Körfubolti

NBA í nótt: Kærkominn sigur hjá New Jersey

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brook Lopez og Josh Smith eigast við í leik New Jersey og Atlanta í nótt.
Brook Lopez og Josh Smith eigast við í leik New Jersey og Atlanta í nótt. Mynd/AP

New Jersey Nets vann í nótt sinn fyrsta sigur í fjórum leikjum er liðið lagði Atlanta Hawks í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 107-101, í framlengdum leik.

Brook Lopez skoraði 32 stig fyrir New Jersey og Devin Harris bætti við 27 stigum, þar af 23 í síðari hálfleik.

Hjá Atlanta var Jamal Crawford stigahæstur með 21 stig og Josh Smith var með 20. Liðinu hefur ekki gengið vel að undanförnu og tapað sjö af síðustu níu leikjum sínum eftir að hafa unnið fyrstu sex á tímabilinu.

New Jersey var með undirtökin nánast allan leikinn en skoraði ekki körfu síðustu tvær mínúturnar í fjórða leikhluta. Atlanta var þá fimm stigum undir en náði að jafna metin áður en venjulegum leiktíma lauk.

Harris fékk reyndar tækifæri til að tryggja sínum mönnum sigurinn í síðustu sókn leikhlutans en allt kom fyrir ekki.

New York vann Charlotte, 110-107. Toney Douglas skoraði 22 stig og New York vann þar með sinn fjórða sigur í röð.

Washington vann Philadelphia, 116-114, í framlengdum leik. Nick Young setti niður þrist þegar lítið var eftir í framlengingunni og fór þannig langt með að tryggja sínum mönnum sigurinn.

Indiana vann Cleveland, 100-89. Danny Granger skoraði 24 stig fyrir Indiana.

Dallas vann Detroit, 88-84. Dirk Nowitzky skoraði 42 stig fyrir Dallas og tók þar að auki tólf fráköst.

LA Lakers vann Chicago, 98-91, Shannon Brown skoraði 21 stig og Kobe Bryant 20 fyrir Lakers. Þetta var fimmti sigur liðsins í röð.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×