Innlent

Framkvæmdastjóri SI: Nýsköpun mun skaðast

Jón Steindór Valdimarsson segir að það þurfi að bregðast sem fyrst við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.
Jón Steindór Valdimarsson segir að það þurfi að bregðast sem fyrst við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.

„Þetta er stór þáttur í okkar tekjustraumum en tilvera okkar veltur ekki á þessu," segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdarstjóri Samtaka Iðnaðarins, en Mannréttindadómstóll Evrópu birti úrskurð í morgun um að iðnmálagjald sé ólögmætt.

Það var húsasmiðurinn Vörður Ólafsson sem kærði málið til Mannréttindadómstólsins. Hæstiréttur Íslands hefur hinsvegar tvisvar úrskurðað að gjöldin séu lögleg.

Iðnmálagjald er gjald upp á 0,08 prósent sem leggjast á allan iðnað í landinu. Gjöldin fara eftir umsvifum fyrirtækja. Tekjunum skal svo varið til þess að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu.

„Það hefur verið sátt um þetta í 40 ár," segir Jón Steindór. Aðspurður hversu háar upphæðir sé um að ræða segir Jón að á mesta uppsveiflutímabilinu hafi tekjurnar verið um 400 milljónir. Hann bendir þó á að það sé afbrigðilegt í ljósi ástandsins sem þá ríkti. Jón áréttar þó að upphæðirnar geti verið háar.

Að sögn Jóns þá mun dómur Mannréttindadómstólsins helst bitna á nýsköpun og menntamálum innan iðnaðarins enda skylt samkvæmt lögum að endurúthluta peningunum í iðnað og iðnþróun í landinu. Jón segir að hingað til hafi verið sátt um hlutverk Samtaka Iðnaðarins í þessu samhengi. Nú er það í uppnámi.

Jón segir næsta skref sé að fara betur yfir dóminn sem var birtur í morgun. Þá þurfi að funda með iðnaðarráðherra vegna málsins en ráðuneytið fer með eftirlit vegna gjaldanna.

Aðspurður hvort dómurinn sé ekki einfaldlega réttlátur segir Jón að samtökin muni ekki deila við dómarann. „Það verður samt að bregðast við þessu sem allra fyrst," segir Jón Steindór sem stefnir á að funda með iðnaðarráðherra vegna málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×