Lögregla leitar enn að morðvopni sem notað var til þess að stinga mann á fertugsaldri til bana í Hafnarfirði aðfaranótt síðastliðins sunnudags.
Um er að ræða eggvopn sem hann var margstunginn með. Unnusta mannsins kom að honum látnum á svefnherbergisgangi í húsinu sem hann bjó í rétt fyrir hádegi á sunnudag.
Síðdegis í gær var manni á þrítugsaldri sleppt úr haldi lögreglu vegna málsins. Maðurinn var yfirheyrður í fyrrakvöld og síðan látinn gista fangaklefa yfir nóttina. Ekki þóttu efni til að að krefjast gæsluvarðhalds yfir honum.
Verjandi mannsins, Guðrún Sesselja Arnardóttir, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hún segir bera að „...fordæma þau forkastanlegu vinnubrögð sem ákveðnir fjölmiðlar hafa viðhaft í þessu máli og þá sérstaklega ótímabæra nafn- og myndbirtingu af skjólstæðingi mínum.
Gera verður þá kröfu til fjölmiðla að þeir hafi í heiðri þá meginreglu réttarfarslaga að maður sé saklaus uns sekt telst sönnuð og á það sérstaklega við þegar hvorki hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir viðkomandi, né heldur gefin út ákæra.“
Guðrún Sesselja sagði við Fréttablaðið í gær að hún myndi fara yfir málið með skjólstæðingi sínum hvað varðaði nafn- og myndbirtingu á honum í fjölmiðlum. Nafn mannsins var birt á vefmiðlunum dv.is og í kjölfarið á pressan.is og eyjan.is.
Vel kunni að vera að höfðað verði mál á hendur viðkomandi fjölmiðlum á grundvelli meiðyrða eða brots á friðhelgi einkalífs.
„Ég skil ekki svona vinnubrögð,“ sagði Guðrún Sesselja.
Á fjórða tug lögreglumanna vinnur að rannsókn morðmálsins. Fjölmargir hafa verið yfirheyrðir og þeirri vinnu er ekki lokið. Tæknirannsókn á vettvangi er langt komin og önnur gagnaöflun í fullum gangi. Fjöldi ábendinga hefur borist frá almenningi og verið er að vinna úr þeim eftir því sem tilefni er til.
Lögreglan biður þá sem upplýsingar geta gefið í tengslum við rannsókn málsins um að hafa samband í 444 1104.jss@frettabladid.is