Viðskipti erlent

Olíusjóðurinn að kaupa verslunargötu af Bretadrottningu

Hluti af einni þekktustu verslunargötu í miðborg London, Regent Street, er til sölu. Eigandi götunnar er Elísabet II Bretadrotting.

Bresku konungsfjölskyldunni er bannað með lögum að taka lán og því þarf hún að selja eignir ef hana skortir lausafé. Samkvæmt frétt í blaðinu Telegraph á Elísabet Bretadrottning nú í samningum við norska olíusjóðinn um sölu á allt að fjórðungi af Regent Street en öll húsin við þá götu, sem og gatan sjálf eru í eigu Elísabetar.

Norski olíusjóðurinn hefur fengið heimild frá norskum stjórnvöldum til þess að fjárfesta fyrir allt að 2.600 milljarða króna í erlendum fasteignum.

Það er fasteignafélag drottningarinnar, The Crown Estate, sem annast söluna en verðmiðinn fyrir fjórðunginn af Regent Street er 400 milljónir punda eða um 75 milljarðar króna. Féið ætlar Elísabet að nota til nauðsynlegra endurbóta og þróunnar á eignum sínum í St. James hverfinu.

Hvorki konungsfjölskyldan né olíusjóðurinn vilja staðfesta að samningar um kaupin á Regent Street standi yfir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×