Viðskipti erlent

Gullboð koma í staðinn fyrir Tupperwareboð

Þetta hófst með húsmæðrum sem voru lokkaðar í heimboð til að skoða Tupperwareskálar. Síðan komu heimboð með BodyShop vörum og Botox meðferðum. Það nýjasta eru gullboð en þar fara viðskiptin í hina áttina.

Á börsen.dk er um nýjasta æðið í heimboðum húsmæðra þar sem konur koma saman, fá gamalt gullskart sitt verðmetið og fara svo heim með ávísun í vasanum.

Í Bretlandi er það fyrirtækið Ounces2Pounds sem stendur nú fyrir um 75 gullboðum í hverjum mánuði en hugmyndin kemur upphaflega frá Bandaríkjunum. Þar kom fyrirtækið Glitter2Green fyrsta á markaðinn með þessi gullboð en nafn fyrirtækisins má þýða sem "glys fyrir græna seðla" og er þar vísað til þess að dollaraseðlar eru grænir að lit.

Í þeim heimboðum sem Ounces2Pounds skipuleggur eru yfirleitt 12-15 konur samankomnar með gullskart sitt. Verðið sem þær fá fyrir skartið er heimsmarkaðsverð hverju sinni mínus þóknun til kaupandans. Þar sem verð á gulli hefur sjaldan verið hærra en nú er hægt að ná ágætis pening út úr gamla gullskartinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×