Lífið

Tónlist.is græjar sig fyrir iPad

Tinni Sveinsson skrifar
Vefurinn tekur sig vel út í græjunum frá Apple-tölvurisanum.
Vefurinn tekur sig vel út í græjunum frá Apple-tölvurisanum.
iPad-væðingin er hafin út um allan heim og svo virðist sem Ísland verði þar engin undantekning. Þessi byltingakennda fistölva frá Apple verður fáanleg hérlendis í haust en veffyrirtæki landsins eru þegar byrjuð að undirbúa komu hennar.

Vefurinn Tónlist.is er til að mynda búinn að búa til þjónustuforrit, svokallað App, sem byggir á því að notendur vefsins geta nú nýtt áskrift sína í gegnum iPad, iPod Touch og iPhone. Þetta þýðir að þeir sem eru í áskrift hjá Tónlist.is geta streymt tónlist hvar og hvenær sem er í gegnum viðkomandi handtæki.

„Í fyrstu útgáfu er hægt að hlusta á allt íslenskt efni. Í lok mánaðarins kemur inn efni frá Universal og þegar líður á sumarið er ætlunin að efni frá Sony, Warner og EMI komi inn í þjónustuna en samningarviðæður um það eru í gangi. Þegar þessi fyrirtæki eru komin inn hafa áskrifendur aðgang að fjórum milljónum laga. Eina sem viðkomandi þarf að hafa er aðgang að Wi-Fi eða 3G tengingu," segir í fréttatilkynningu frá Tónlist.is.

Tónlist.is er stærsta tónlistarverslun landins. Vefurinn segir þetta eina af mörgum nýjungum sem væntanlegar eru á árinu en skemmst er að minnast þess þegar hann gerði samning við Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík um rannsóknir á flokkun laga eftir innihaldi þeirra.

Til að ná sér í þjónustuna er hægt að smella hér og fara á vef Apple og sækja umrætt App fyrir tækin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.