Fótbolti

Inzaghi íhugar að fara frá Milan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP

Filippo Inzaghi, sóknarmaður AC Milan, segist gjarnan fá að vilja spila meira en hann hefur fengið að gera með Milan undanfarið.

Inzaghi er 37 ára gamall en hefur verið í herbúðum Milan undanfarin níu ár. Hann er í guðatölu hjá stuðingsmönnum félagsins en hann sýndi á dögunum að hann er enn í góðu formi.

Þá skoraði hann bæði mörk Milan í 2-2 jafntefli gegn Real Madrid. Engu að síður var hann á bekknum um helgina er Milan lék við Bari í ítölsku úrvalsdeildinni.

„Ég vil enn gegna mikilvægu hlutverki hjá Milan. Ég hef fengið tilboð frá tveimur öðrum félögum og það er ánægjulegt að það skuli enn verið að fylgjast með mér," sagði hann í samtali við ítalska fjölmiðla.

„Ég vil ekki bara spila þegar neyðin er sem mest en við skulum sjá til hvað gerist eftir tvo mánuði."

„Mér þykir afar vænt um Milan en ég vil enn spila enda líður mér mjög vel."

Adriano Galliani, varaforseti Milan, segir hins vegar að ekki komi til greina að sleppa Inzaghi.

„Ég hef sagt honum að það komi ekki til greina að sleppa honum í janúar. Jafnvel meistarar þurfa líka að sitja á bekknum af og til. Allegri [stjóri Milan] velur sitt sterkasta lið hverju sinni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×