Lífið

Kennir upprennandi DJ-um

Guðni Einarsson plötusnúður heldur sérstakt plötusnúðanámskeið fyrir unga og aldna plötusnúða. fréttablaðið/arnþór
Guðni Einarsson plötusnúður heldur sérstakt plötusnúðanámskeið fyrir unga og aldna plötusnúða. fréttablaðið/arnþór
Plötusnúðurinn Guðni Einarsson, eða DJ Impulze, stendur fyrir sérstökum plötusnúðanámskeiðum þar sem hann kennir upprennandi plötusnúðum á öll helstu tónlistarforritin sem notuð eru í dag. Námskeiðin vinnur hann í samstarfi við Hljóðfærahúsið og Tónabúðina.

„Mér fannst vanta námskeið sem þetta fyrir þá sem hafa áhuga á DJ-mennsku og ákvað í kjölfarið að halda slíkt námskeið í samstarfi við Hljóðfærahúsið,“ segir Guðni sem hefur sjálfur starfað sem plötusnúður í mörg ár. Námskeiðin eru bæði fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í skífuþeytingum og þá sem eru lengra komnir.

„Það eru bæði strákar og stelpur sem sækja námskeiðin og það kom mér eiginlega á óvart hversu margar stelpur hafa sýnt þessu áhuga. Þátttakendurnir eru frá þrettán ára aldri og alveg upp í þrítugt þannig að margir eru enn of ungir til að spila á skemmtistöðum, en þetta eru allt mjög efnilegir plötusnúðar og það vantar ekki eldmóðinn.“

Aðspurður segir Guðni aðeins pláss fyrir þrjá til fjóra upprennandi plötusnúða á hverju námskeiði því þannig fái hver nemandi nægan tíma fyrir sig.

Áhugasamir geta skráð sig á námskeiðið í gegnum vefsíðuna www.rvkunderground.com. - sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.