Íslenski boltinn

Fá Valskonur gull- silfur og bronsskóinn í ár?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallbera Guðný Gísladóttir.
Hallbera Guðný Gísladóttir. Mynd/Daníel
Valskonur eru í frábærum málum í Pepsi-deild kvenna eftir leiki gærkvöldsins með sex stiga forskot á toppnum auk þess að eiga leik inni á liðið í öðru sæti sem er Breiðablik. Valsliðið hefur skorað 51 mark í 11 leikjum eða 28 mörkum meira en næsta lið og nú er svo komið að liðið á þrjá markahæstu leikmenn deildarinnar.

´

Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði tvö mörk í 9-0 sigri á FH á Vodafone-vellinum í gær og var komin með eins marks forskot á Björk Gunnarsdóttur þar til að Björk skoraði sitt ellefta mark á tímabilinu í uppbótartíma. Björk var markahæst fyrir umferðina með 10 mörk e nú eru þær efstar og jafnar með 11 mörk eftir 11 umferðir.

Hallbera Guðný Gísladóttir er núna komin upp í þriðja sætið með 10 mörk eftir að hún skoraði fernu á móti FH í gær og er því búin að skora sex mörk í tveimur síðustu leikjum. Hallbera er þegar búin að bæta sitt persónulega met en hún hafði mest skorað 6 mörk á einu tímabili sumarið 2008.

Það gæti því farið svo að Valskonur fái gull- silfur og bronsskóinn í ár en þrír markahæstu leikmenn deildarinnar eru verðlaunaðir í mótslok. Það er reyndar stutt í Mateja Zver sem skoraði sitt níunda mark í 2-3 tapi Þór/KA á móti Blikum í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×