Innlent

Orðspor fjórflokksins lélegt

Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður, er formaður Frjálslynda flokksins.
Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður, er formaður Frjálslynda flokksins.
„Íslendingar hafa sýnt aðgerðarleysi ríkisstjórnar Samfylkingar og VG gríðarlegt langlundargeð. Það orsakast af því hvað hinir hlutar fjórflokksins hafa lélegt orðspor," segir í ályktun sem miðstjórn Frjálslynda flokksins samþykkti og sendi frá sér í dag. Flokkurinn þurrkaðist út af þingi í kosningunum í apríl á síðasta ári.

Miðstjórnin segir ríkisstjórnina storka almenningi með marklausu tali þar sem slegið sé úr og í hvernig marglofuð skjaldborg verði reist um íslensk heimili. „Engar aðgerðir liggja fyrir og ekki einu sinni útreikningar á mögulegum lausnum nú tveimur árum eftir hrun!"

Miðstjórn Frjálslynda flokksins telur jafnframt að stjórnvöld bjóði ekki upp á útfærða atvinnustefnu.

„Ríkisstjórnin hefur í orði kveðnu ráðfært sig við hin ýmsu öfl í samfélaginu m.a. stjórnarandstöðuflokkana sem sumir hafa tekið þeirri málaleitan illa. Frjálslyndi flokkurinn lýsir sig reiðubúinn til þess að fylla þeirra skarð og benda á velrökstuddar tillögur landi og þjóð til heilla."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×