Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni endaði í 6. sæti af átta keppendum í spjótkasti á fyrsta móti Demanta-mótaraðarinnar sem fram fór í Katar í dag.
Ásdís kastaði lengst 54,74 metra sem er nokkuð frá hennar besta en Íslandsmet hennar er upp á 61,37 metra. Ásdís kastaði lengra en bæði rúmenska stelpan Maria Negoita og austurríska stelpan Elisabeth Pauer á mótinu.
Ásdís gerði ógilt í fyrsta kasti en kastaði svo 54,74 metra í öðru kasti sínu. Ásdís gerði síðan aftur ógilt í þriðja kasti sínu en kastaði síðan 53,47 metra í fjórðu tilraun sinni.
Rússinn Mariya Abakumova vann spjótkastið þegar hún kastaði 68,89 metra en í öðru sæti var heimsmethafinn Barbora Sportkova með kast upp á 67,33 metra.
