Viðskipti innlent

Börsen segir Össur hf. vera gullegg að klekjast út

Danska viðskiptablaðið Börsen fer mjög lofsamlegum orðum um stoðtækjaframleiðandann Össur hf. Segir Börsen að Össur sé gullegg sem sé um það bil að klekjast út.

Í ítarlegri umfjöllun blaðsins segir að Össur hafi hrist af sér kreppuna sem ríkir í heimalandi félagsins eftir árangursríkt ár sem skráð félag í kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Fjárhagsstaða Össurra sé mjög sterk og nú standi félagið á tímamótum sem gæti gert stöðuna enn betri.

Þrátt fyrir að hrun efnahagslífsins á Íslandi hafi eyðilagt megnið af fyrirtækjum landsins hefur Össur verið óstöðvandi. Á því ári sem liðið er frá skráningunni í Kaupmannahöfn hafa hlutir í Össurri hækkað um 80% í verði.

Framtíðin er björt að sögn Börsen en Össur og þýskt fjölskyldufyrirtæki eru að koma með nýja kynslóð af stoðtækjum á markaðinn. Þau tæki muni byggja á líftæknigrunni en ekki málmtækni.

Þá er samdráttur í heilbrigðisþjónustu margra landa ekki talinn hafa áhrif á rekstur Össurar, þar sem mikil hernaðarumsvif víða um heiminn muni halda uppi eftirspurn eftir stoðtækjum félagsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×