Innlent

Verkefnin að klárast

„Í raun og veru er ekkert stórt framundan,“ Árni Jóhannsson, hjá mannvirkjasviði Samtaka iðnaðarins.
„Í raun og veru er ekkert stórt framundan,“ Árni Jóhannsson, hjá mannvirkjasviði Samtaka iðnaðarins. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Verktakaiðnaðurinn sér fram á auðn þegar helstu verkefni í mannvirkjagerð og jarðvinnu klárast hvert af öðru í sumar og haust. Fjögur fyrirtæki í greininni gripu til fjöldauppsagna nú um mánaðamótin.

Í þessum atvinnugeira hefur sumarið jafnan verið hábjargræðistíminn. Uppsagnir Ístaks, Eyktar, KNH-verktaka og Ræktunarsambands Flóa og Skeiða á samtals um 200 manns í vikunni lýsa alvarlegri stöðu.

„Nú ætti að vera aðalathafnatíminn og allir ættu að vera á fullu. Það er öðru nær því nú eru menn að segja upp í stórum stíl. Það er ekkert sem vekur mönnum bjartsýni og þeir grípa til þeirra úrræða að segja upp starfsfólki," segir Árni Jóhannsson, hjá mannvirkjasviði Samtaka iðnaðarins.

Við blasa enn fleiri uppsagnir þegar stór verkefni í vegagerð víða um land klárast hvert af öðru á næstu vikum og mánuðum, eins og Dettifossvegur, Raufarhafnarleið, Hófaskarðsleið, Vopnafjarðarvegur, Suðurstrandarvegur, brúin yfir Hvítá, Lyngdalsheiðarvegur og jarðgöngin um Héðinsfjörð og Óshlíð. Þá er Landeyjahöfn á lokastigi.

„Í raun og veru er ekkert stórt framundan sem við vitum um fyrir utan Búðarháls. Það er eina verkefnið sem er að koma í útboð," segir Árni.

Með stöðugleikasáttmálanum í fyrra hafi hið opinbera gefið fyrirheit um að koma framkvæmdum stað, lífeyrissjóðir bíði tilbúnir með fjármagn, en það liggi ósnert og ekkert gerist.

„Við hefðum gjarnan viljað að hið opinbera - ríkið og sveitarfélög - kæmi inn á markaðinn en það er ekkert að gerast. Það er í raun og veru það sem lýsir þessu best. Það er ekkert að gerast," segir Árni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×