Innlent

Yndisleg tilfinning að vera á heimleið

„Þetta er alveg yndisleg tilfinning eftir allt sem við erum búin að ganga í gegnum. Þetta er búið að ganga svo brösuglega að við erum alveg í skýjunum," segir Helga Sveinsdóttir í samtali við Fréttablaðið, en hún er nú farin að huga að heimferð frá Mumbai í Indlandi ásamt manni sínum, Einari Þór Færseth, og Jóel, fimm vikna gömlum syni þeirra.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu á laugardag eignuðust hjónin hann með aðstoð staðgöngumóður á Indlandi, en lentu í miklum vandræðum með að fá drenginn viðurkenndan sem íslenskan ríkisborgara og komust því ekki með hann heim til Íslands. Alþingi hjó svo á hnútinn er það veitti Jóel íslenskan ríkisborgararétt á laugardag og er fjölskyldunni því fátt að van­búnaði.

„Við eigum enn eftir að fá vegabréfið en trúum ekki öðru en að nú sé málið loks í höfn og við bíðum spennt eftir að koma heim."

Helga segir óvíst hvenær þau komi heim, en þau vonist til þess að það geti orðið fyrir jól. Jóel litli hafi það annars mjög gott.

„Hann dafnar vel og er hraustur og sprækur."

Ástæðan fyrir því að erfiðlega gekk að fá leyst úr málum þeirra Helgu og Einars er ákveðið lagalegt tómarúm hér á landi um staðgöngumæðrun.

Samkvæmt lögum er staðgöngumæðrun bönnuð hér á landi en ekkert í indverskum lögum bannar slíkt.

Þau leituðu því á náðir alþingis­manna, sem veittu málinu loks brautargengi og veittu Jóel ríkisborgararétt ásamt 42 öðrum. Þingsályktunartillaga sextán þingmanna úr Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki liggur nú fyrir á Alþingi en þar er kallað eftir lagasetningu um að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði heimiluð. thorgils@frettabladid.is












Fleiri fréttir

Sjá meira


×