Viðskipti innlent

Leitað að kaupendum að Magma-bréfinu

Böðvar Jónsson hefur ekki gefið upp alla von um að 1,8 milljarða lánið gjaldfallna fáist endurfjármagnað.
Fréttablaðið/E. ól
Böðvar Jónsson hefur ekki gefið upp alla von um að 1,8 milljarða lánið gjaldfallna fáist endurfjármagnað. Fréttablaðið/E. ól

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur grennslast fyrir um áhuga mögulegra innlendra kaupenda að skuldabréfi á Geysi Green Energy vegna kaupanna á HS Orku. Uppreiknað virði bréfsins er um sjö milljarðar og er langstærsta peningalega eign bæjarfélagsins, sem á í töluverðum fjárhagskröggum og hefur ekki getað greitt af 1,8 milljarða erlendu láni sem fallið er í gjalddaga. Nú er unnið að færslu skuldabréfsins frá Geysi til Magma Energy.

Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs, vill ekki tjá sig um til hvaða aðila hefur verið leitað um hugsanleg kaup. Slíkar þreifingar séu þó ekki komnar á viðræðustig. Spurður hvort haft hafi verið samband við Framtakssjóð Íslands segir Böðvar: „Þeir hafa verið að skoða hugsanlega aðkomu að HS Orku og við höfum látið það ganga fyrir áður en við ræðum um hvort þeir vilja hugsanlega kaupa þetta skuldabréf.“

Böðvar segir þó að engin sérstök óvissa ríki um verðmæti bréfsins, þrátt fyrir mögulegt inngrip stjórnvalda í kaup Magma á HS Orku. „Bréfið og skilmálar þess standa í sjálfu sér óhaggaðir,“ segir hann. Verði hins vegar komið í veg fyrir kaupin og Geysir ráði ekki við að greiða af bréfinu muni Reykjanesbær einfaldlega eignast sinn hlut í HS orku að nýju. „Það getur auðvitað gerst, ef menn velta fyrir sér hinu versta.“

Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga sendir líklega bréf á verst stöddu sveitarfélög landsins í dag þar sem óskað er skýringa á stöðunni. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×