Samkvæmt heimildum fréttastofu notar fjöldi bænda geldingatangir á gripi sína og eru þeir heldur óhressir með hugmyndir um sölubann til leikmanna. Að þeirra mati snýst umræðan um að banna sölu á töngunum til annarra en dýralækna aðeins um að dýralæknar óttist að missa spón úr aski sínum. Bændur segja tangirnar öruggar og að aðgerðin taki fljótt af þannig að sá sársauki sem dýrin finna fyrir sé hverfandi. Auk þess telja þeir að auknar líkur séu á sýkingarhættu þegar verið er að sprauta dýrin með deyfilyfjum fyrir aðgerð og mögulega fjarlægja eistu á annan hátt en með töngunum.
Til að gelda karldýr töngin notuð til að klemma æðarnar fyrir ofan eistum og stoppa blóðflæði til þeirra. Þannig kemur drep í eistun, þau minnka og visna.

Dýraverndarráð fékk á síðasta ári ábendingu um að verslum með landbúnaðarvörur væri að selja tangirnar, sem kallast einnig burdizzo-tangir, til hvers sem kaupa vildi. Þetta var og er fullkomlega leyfilegt. Ráðið beindi þó þeim tilmælum til verslunarinnar að taka tangirnar úr almennri sölu og var strax orðið við því.
Auglýst í Bændablaðinu
Á fundi stjórnar Dýraverndarráðs í nóvember á síðasta ári var tekið fyrir erindi frá Dýralæknafélagi Íslands vegna hrútatanganna. Félagið vakti þar athygli á auglýsingu sem birtist í Bændablaðinu þar sem Burdizzo-geldingatangir voru auglýstar til sölu.
„Formaður dýraverndarráðs lýsti virkni tanganna sem dýralæknar nota til að gelda kálfa og hrúta að undangenginni deyfingu. Dýraverndarráð vekur athygli á að gelding með slíkum töngum er aðeins heimil dýralæknum þar sem aðgerðin krefst deyfingar. Með því að selja geldingatangir til almennings er hættunni boðið heim að bændur telji sig mega gelda dýrin sjálfir og þá ódeyfð," segir í fundargerð Dýraverndarráðs.
Þá samþykkti stjórnin samhljóða að skora á fyrirtækið sem auglýsti tangirnar að stöðva strax sölu á þeim til almennings þar sem í dýraverndarlögum sé skýrt kveðið á um að dýralæknum einum sé heimilt að gelda dýr. Þar var einnig tekið fram að sársaukafullar aðgerðir á borð við geldingu krefist þess að dýrin séu geld áður, en það geri aðeins dýralæknar.
„Það er því ljóst að einungis dýralæknar mega nota umræddar tangir en þeir einir mega gelda og deyfa dýr. Dýraverndarráð gerir sér grein fyrir að ekki er ólöglegt að selja þessar tangir á almennum markaði, en með slíkri sölu er stuðlað að því að bændur geldi dýrin sjálfir og þá ódeyfð, sem er skýrt brot á 13. gr. dýraverndarlaga og 7. gr. laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr," segir í bókun sem stjórn samþykkti á fundinum.