Viðskipti innlent

Almenningur hætti að greiða af lánum

Guðmundur Andri Skúlason, talsmaður Samtaka lánþega.
Guðmundur Andri Skúlason, talsmaður Samtaka lánþega. Mynd/Valgarður Gíslason
Samtök lánþega hvetja alla lánþega til að hætta að greiða af hvers kyns gengistryggðum skuldbindingum. Ástæðan er meðal annars endurútreikningur Landsbankans á erlendum húsnæðislánum. Ábyrg afstaða, segir talsmaður samtakanna.

Samtök lánþega birtu í gær yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem þau hvetja alla lánþega til að stöðva greiðslur af gengistryggðum skuldbindingum, hvaða nafni sem þær kallast. Guðmundur Andri Skúlason, talsmaður samtakanna, sakar fjármálafyrirtæki um að fylgja ekki úrskurðum dómstóla eftir að gengistrygging lána var dæmd ólögmæt.

„Ég meina Landsbankinn sendir tilmæli til sinna lántakenda sem bera það með sér að lánin verði margfallt óhagstæðri heldur en ef að aldrei hefði fallið Hæstaréttardómur. Lýsing, Glitnir, SP-fjármögun og fleiri fyrirtæki segja að það sé bara ákveðinn samningur sem falli undir Hæstaréttardóminn en ekki aðrir. Við viljum beina því til fólks að þetta sé orðið gott. Það er þessara fyrirtækja að sækja á okkur en ekki endalaust okkar að sækja á þau," segir Guðmundur.

Fréttastofa greindi frá endurútreikningum Landsbankans í gær, en bankinn endurreiknaði gengistryggð húsnæðislán í samræmi við tilmæli eftirlitsstofnana. Bankinn hefur sagt að lánunum hafi í mörgum tilfellum verið skilmálabreytt, svo endurútreikningur miðað við upphaflegar samningsforsendur endurspegli ekki réttan mun á greiðslubyrði lánanna eftir sem áður.

Guðmundur segir ekki ábyrgðarlaust að hvetja fólk til að hætta að greiða af lánunum á sama tíma og þegar fjármálastofnanir eru að vinna innan tilmæla frá eftirlitsstofnunum. Hann segir tilmælin hafa ekki lagalegt gildi og því séu ábendingar samtakanna til lánþega þvert á móti ábyrgar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×