Skoðun

Kirkjan er ekki að skorast úr leik!

Ríkið innheimtir sóknargjöld fyrir trúfélög í landinu. Þau hafa lækkað töluvert undanfarin ár og eðlilegt að kirkjan fari fram á það að það lækki ekki frekar. Sóknargjöldin standa undir starfi safnaðanna, barnastarfi, öldrunarstarfi, kórastarfi og velferðarstarfi í kreppu. Víða, einkum úti um land, standa þau vart undir grunnstarfinu lengur. Þess vegna er eðlilegt að kirkjan móist við þegar hætta er á að þau lækki enn frekar.

Nær öll önnur framlög til kirkjunnar eru samningsbundin og er þar langstærsti liðurinn laun prestanna og starfsmanna biskupsstofu, en starfsmenn þar útbúa barnaefni og annast ýmis sameiginleg verkefni fyrir kirkjuna. Kirkjan seldi jarðeignir sínar í hendur ríkisins gegn því að ríkið greiddi þessi laun. Er talið að upphæðin jafngildi 2-3% rentu af eignasafninu. Þessi samningur er lögvarinn og er talið fullvíst að standi ríkið ekki við hann myndi eignasafnið renna aftur til kirkjunnar. Í Svíþjóð er það t.d. þannig að kirkjan þar afsalaði sér aldrei eignasafni sínu og byggir starf sitt af rentu á því. Það væri alveg hægt hér.

Nú kunna menn sem alast upp við sterkt ríkisvald og veikt kirkjuval að efast um að kirkjan hafi átt tilkall til eigna sinna hér áður fyrr. En svona var það nú bara. Kirkjan eignaðist þetta og á með réttu og notar til að halda uppi kerfi um allt land sem giftir, grefur og skírir og hjálpar fátækum og boðar guðs náðina sem allir hafa heyrt um og allir sækjast eftir með einhverjum hætti.

Og kirkjan, undirritaður sat kirkjuþing, vill axla byrðar eins og allir. Starfsmönnum verður fækkað og laun verða lækkuð. En það var skoðun allra þeirra sem sóttu þingið að niðurskurður til kirkjunnar ætti að haldast í hendur við niðurskurð til velferðarmála og sú velferðarstjórn sem nú situr reynir að halda niðurskurði til slíkra mála við fimm prósent markið. Kirkjan er því ekki að skorast úr leik heldur vill standa vörð um velferðina. Það á hún sameiginlegt með ríkisstjórninni.










Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×