Fótbolti

Gylfi: Mikil áskorun að mæta Bayern

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu gegn Kaiserslautern.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu gegn Kaiserslautern. Nordic Photos / Bongarts

Gylfi Þór Sigurðsson vonast til þess að fá sæti í byrjunarliði Hoffenheim þegar liðið mætir Bayern München í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Gylfi kom inn á sem varamaður í leik liðsins gegn Kaiserslautern um helgina og skoraði aðeins nokkrum sekúndum síðar beint úr aukaspyrnu. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli.

„Stjórinn sendi mig inn á völlinn og sagði mér að taka aukaspyrnuna. Það var fullkominn tími til að skora þar sem við vorum 2-1 undir. Ég hefði hins vegar frekar kosið að fá þrjú stig í leiknum en að skora. Við getum þó verið ánægðir með stigið enda höfðum við mikið fyrir því,“ sagði Gylfi í viðtali sem birtist á heimasíðu Hoffenheim.

„Auðvitað vil ég komst í byrjunarliðið enda er það ósk allra leikmanna. Það mun hins vegar taka einhvern tíma að venjast nýjum leikstíl. Við erum með sterkt lið sem vann fyrstu þrjá leiki tímabilsins og vonandi getum við haldið áfram á þeirri braut.“

„Leikurinn við Bayern verður mikil áskorun. Bayern er eitt stærta og besta félag heims. Vonandi verður uppselt á vellinum svo áhorfendur geti veitt liðinu sinn stuðning. Þetta verður mjög spennandi leikur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×