Viðskipti erlent

Tekjur dánarbús Jacksons nema milljarði dollara

Óhætt er að segja að erfingjar Michael Jacksons hafi grætt á tá og fingri frá því að poppkóngurinn lést fyrir ári síðan.

Samkvæmt yfirliti sem tónlistartímaritið Billboard hefur unnið námu tekjur dánarbús Jacksons á þessu ári um einum milljarði dollara eða rúmlega 127 milljörðum króna. Þetta er um helmingi hærri upphæð en Jackson skuldaði þegar hann lést.

Tekjur dánarbúsins eru einkum höfundarrétturinn af tónlist Jackson sem og sala á ýmsum varningi tengdum nafni hans.

Erfingjar Jackson njóta góðs af hinu góða gengi poppkóngsins eftir andlátið en erfingjarnir eru móðir hans hin áttræða Katherine og börnin þrjú ásamt tveimur góðgerðarsamtökum. Dánarbúið hefur svo her á lögmönnum í sinni þjónustu sem standa að innheimtunni og passa upp á að engu sé stolið hvað varðar höfundarréttinn.

Í tilefni af því að ár er liðið frá andláti Jackson verður minningarathöfn haldin um næstu helgi við Forest Lawn kirkjugarðinn í Los Angeles þar sem poppkóngurinn liggur grafinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×