Lífið

Guðmundur Ingi í nýju Iron Maiden-myndbandi

Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari bjargar jörðinni úr klóm Eddie.
Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari bjargar jörðinni úr klóm Eddie.
„Ég er Iron Maiden-aðdáandi frá fornu fari. Á þeim tíma sem ég var að byrja að spila á gítar voru það lög þeirra sem urðu fyrir valinu. Það eru sennilega fá lög sem ég hef eytt jafn miklum tíma í og The Prisoner. Eyddi mörgum dögum í að reyna að ná því fullkomnu, en auðvitað tókst það aldrei," segir Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari.

Guðmundur leikur í nýjasta myndbandi hljómsveitarinnar Iron Maiden við lagið The Final Frontier sem var frumsýnt á vefsíðu hljómsveitarinnar í gær. Í myndbandinu flýgur Guðmundur út í geim þar sem hann berst við skrímslið Eddie, andlit og merki Iron Maiden, um lykil sem eytt getur jörðinni.

„Það var ofboðslega gaman að taka þátt í myndbandinu. Mjög fært fólk kemur að því, bæði þeir sem tóku upp og skrifuðu handritið en einnig fyrirtækið Darkside Animation Films sem sá um tölvuvinnuna. Fólk lagði gríðarlega vinnu í framleiðsluna og alveg frábært að sjá þetta verða til," segir Guðmundur.

Leikstjóri myndbandsins, Nick Scott, fann Guðmund í gegnum umboðsfyrirtæki hans, Olivia Bell Management. Eftir að hafa kynnt sér hann í gegnum heimasíðu Guðmundar var honum boðið að koma á fund. Í fyrsta handritinu sem Guðmundur fékk í hendurnar ætluðu meðlimir Iron Maiden að fara með hlutverk en sökum tónleikaferðalags um Bandaríkin skrifuðu þeir sig út og myndbandinu. Nú fara Guðmundur og Eddie einir með hlutverkin þar sem þeir berjast um lykilinn.

„Myndbandið var tekið upp á þremur stöðum. Við byrjuðum í yfirgefinni herstöð sem Bandaríkjamenn skildu eftir. Þetta er staður þar sem oft var tilkynnt að fljúgandi furðuhlutir hefðu sést á sjöunda áratugnum og hvílir mikil dulúð yfir staðnum. Næst fórum við í yfirgefið orkuverk og að lokum var farið í stúdíó þar sem búið var að byggja leikmynd og geimskipið og ég lék fyrir framan svokallað „green-screen"," segir Guðmundur.

Iron Maiden er mjög stórt vörumerki og er allt lagt undir hljómsveitina. Þeir völdu þessa hugmynd úr mörgum tilboðum og tók það þá langan tíma að fínpússa hugmyndina svo hún myndi passa þeirra stíl. „Ég á boð um að fá að koma á tónleika með þeim hvar sem er og hvenær sem er til að hitta á þá og geri ég ráð fyrir að það verði frábært," segir Guðmundur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.