Viðskipti erlent

Forráðamenn í Grimsby hafa áhyggjur af Icesavedeilunni

Forráðamenn í Grimsby hafa áhyggjur af Icesavedeilunni milli Íslands og Bretlands og Hollands. Vilja þeir helst ljúka málinu sem allra fyrst og komu þeim skilaboðum áleiðis til Irranca-Davies sjávarútvegsráðherra Bretlands þegar hann heimsótti Grimsby í vikunni.

Fjallað er um málið á vefsíðunni FISHupdate.com. Þar segir að þeir Martyn Boyers forstjóri fyrir fiskibátahöfnina í Grimsby og Steve Norton forstjóri Samtaka fiskvinnslufyrirtækja í Grimsby hafi rætt Icesavedeiluna og stöðuna í henni við Irranca-Davies.

Þeir Boyers og Norton hafa áhyggjur af því að Icesavedeilan gæti skaðað viðskipti Grimsby við íslenskar útgerðir en sem sendur kemur um 70% af öllum fiski sem landað er í Grimsby frá Íslandi. Grimsby stendur svo fyrir um 80% af allri fullvinnslu sjávarafurða á Bretlandseyjum.

Þá komu einnig fram áhyggjur af áformum Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra um að setja sérstakt 5% gjald á óunninn fisk sem fluttur er frá Íslandi. Í Grimsby er talið að þetta gjald geti fljótlega hækkað í 10% eða 15%.

„Þetta var mjög gagnlegur fundur með ráðherranum og hann fór frá okkur án vafa um það hve við í Grimsby eru ákveðnir í framtíðaráformum okkar um uppbyggingu bæjarins," segir Norton.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×