Lífið

Flytja inn blaðamenn frá NME og Dazed & Confused

Níu erlendir blaðamenn verða gestir á útgáfutónleikum hljómsveitarinnar For A Minor Reflection.
fréttablaðið/vilhelm
Níu erlendir blaðamenn verða gestir á útgáfutónleikum hljómsveitarinnar For A Minor Reflection. fréttablaðið/vilhelm
Níu erlendir blaðamenn eru á leiðinni til landsins til að fylgjast með útgáfutónleikum hljómsveitarinnar For A Minor Reflection í Iðnó á laugardaginn.

„Þetta verður virkilega gaman og vonandi fáum við almennilega umfjöllun,“ segir gítarleikarinn Guðfinnur Sveinsson.  For a Minor Reflection hefur vakið athygli fyrir seiðandi og tilraunakennt rokk sitt sem er knúið áfram af gítarspili. Koma blaðamannanna er því gott tækifæri fyrir útlendinga að kynnast sveitinni enn betur.

Blaðamenn frá Die Welt og Intro Magazine í Þýskalandi verða á tónleikunum ásamt blaðamönnum frá Dazed & Confused og NME í Bretlandi. Einnig mæta fulltrúar frá belgískum, dönskum og hollenskum blöðum á svæðið. Það er átakið Inspired By Iceland sem aðstoðar við komu þeirra til landsins, rétt eins og gert var fyrir tónleika Hjaltalín og Sinfóníuhljómsveitar Íslands með góðum árangri.

Blöðin sem um er að ræða eru öll frá löndum sem For A Minor Reflection heimsækir á mánaðarlangri tónleikaferð sinni um Evrópu sem hefst í september. „Þetta eru allt löndin sem við erum að fara að spila í á tónleikaferðinni þannig að þetta passar allt rosalega vel saman,“ segir Guðfinnur. Eftir ferðina spilar hljómsveitin á Iceland Airwaves-hátíðinni í Reykjavík.

Útgáfutónleikarnir á laugardagskvöld verða þeir síðustu með trommaranum Jóhannesi Ólafssyni, sem spilaði einmitt inn á nýju plötuna. Í hans stað kemur Andri Freyr Þorgeirsson og mun hann einnig spila á tónleikunum.

Öllu verður tjaldað til í Iðnó og munu hinir ýmsu hljóðfæraleikarar koma við sögu, þar á meðal tveir auka gítarleikarar og tveir auka sellóleikarar. Á tónleikunum verður einnig frumsýnt myndbandsverk sem breski listamaðurinn John Rixon gerði við lagið Sjáumst í Virginíu af nýju plötunni. Rixon er virtur listamaður í Bretlandi og hefur m.a. verið sýningarstjóri í Tate-listasafninu. Auk þess verða sýnd þrjú önnur verk gerð af nemendum hans og eitt frá ítalska listamanninum Lorenzo Fonda.

freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.