Keflvíkingar eru að fara illa með nágranna sína í Njarðvík í stórleik átta liða úrslita Subwaybikars karla í körfubolta en lið mætast í Toyota-höllinni í Keflavík í kvöld. Keflavík hefur 21 stigs forskot í hálfleik, 51-30, og er komið með annan fótinn í undanúrslitin.
Keflavíkurliðið var komið í 21-13 eftir fyrsta leikhluta þar sem Njarðvíkingar skoruðu aðeins þrjár körfur. Leikur Njarðvíkinga lagaðist ekki mikið í öðrum leikhluta og Keflvíkingar komust mest 25 stigum yfir í hálfleiknum, 45-20.
Njarðvíkurliðið hefur aðeins hitt úr 7 af 30 skotum sínum í fyrri hálfleik auk þess að tapa alls 13 boltum á móti pressuvörn Keflavíkurliðsins.
Draelon Burns er stigahæstur í Keflavíkurliðinu með 17 stig, Gunnar Einarsson hefur skorað 15 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson kemur síðan næstur 9 stig. Guðmundur Jónsson er stigahæstur hjá Njarðvík með 7 stig en Nick Bradford er með 6 stig og 11 fráköst.
Keflvíkingar að rassskella Njarðvíkinga í fyrri hálfleik
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
