Handbolti

Guðmundur: Vorum frábærir á köflum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari. Nordic Photos / Bongarts
Guðmundur Guðmundsson sagði margt jákvætt við leik íslenska liðsins gegn Portúgal í kvöld en Ísland vann tíu marka sigur, 37-27.

„Við skoruðum 37 mörk og ekki get ég kvartað undan því. Við misnotuðum þó talsvert af dauðafærum og mér fannst við ekki ná almennilegum tökum á varnarleiknum fyrr en á síðustu 20 mínútum leiksins," sagði Guðmundur.

„Ég skammaði líka leikmenn fyrir að skila sér illa til baka í vörnina í fyrri hálfleik en það er eitthvað sem er auðvelt að laga. Ég hef því ekki miklar áhyggjur af því."

Guðmundur sagði frammistöðu íslenska liðsins hafa verið kaflaskipta en þó hafi góðu kaflarnir verið mjög góðir. „Við vorum stundir frábærir en það er þó eitt og annað sem við þurfum að laga. Ég held að ég hafi þó fengið það sem ég vildi úr leiknum og ekki hægt að fara fram á meira frá strákunum. Þeir gáfu allt sem þeir áttu í leikinn og það er mikill karakter."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×