Viðskipti innlent

Þingið ræðir söluna á Vestia

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er málshefjandi í umræðunni.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er málshefjandi í umræðunni.
Utandagskrárumræða um þátttöku lífeyrissjóðanna í endurreisn atvinnulífsins fer fram á Alþingi á morgun. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er málshefjandi en til andsvara er fjármálaráðherra.

„Tilefnið er auðvitað augljóst. Það eru kaup Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna á eignarhaldsfélagi Landsbankans, Vestia, og fyrirtækjum sem eru í eigu Vestia," sagði Óli Björn í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Óli Björn segir að Landsbankinn hafi brotið eigin starfsreglur þegar að Vesta var selt Framtakssjóðnum. Þar hafi átt að fylgja ákveðnum vinnureglum um gegnsæi og opið ferli við sölu fyrirtækja, eins og hafi verið ákveðið fljótlega eftir að Nýi Landsbankinn tók til starfa.

Óli Björn bendir jafnframt á annað mál sem að hann telur að skipti ekki síður máli. „Það er hvort og þá með hvaða hætti við viljum að lífeyrissjóðirnir taki þátt í atvinnulífinu. Að þeir taki bara hreinlega yfir mörg af stærri fyrirtækjunum og reki þau í samkeppni við aðra, nýti iðgjöld sjóðsfélaga sinna til þess að stunda mjög áhættusama starfsemi, sem er bein fjárfesting í fyrirtækjunum," segir Óli Björn.

Óli Björn telur að flestir séu þeirrar skoðunar að lífeyrissjóðirnir leiki ákveðinn þátt í endurreisn atvinnulífsins. „En hugsanlega væri betra að þeir legðu til nýtt fé en taki ekki yfir fyrirtæki með þeim hætti sem þeir eru að gera," segir Óli Björn. Margir lífeyrissjóðir sem eigi aðild að Framtakssjóðnum hafi þurft að skera niður greiðslur til lífeyrisþega vegna þess að sjóðirnir hafi tapað á hruninu og tapað á fjárfestingum í hlutabréfum í fyrirtækjum.

Utandagskrárumræðan hefst á Alþingi klukkan ellefu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×