Viðskipti innlent

Nýtt heimsmet á smábáti er 1.729 tonn

Áhöfnin á Sirrý Sigurgeir þakkar góðri útgerð og úrvals fólki góðan árangur. 
mynd/jenný
Áhöfnin á Sirrý Sigurgeir þakkar góðri útgerð og úrvals fólki góðan árangur. mynd/jenný

Áhöfnin á Sirrý ÍS-84 frá Bolungarvík, sem er fimmtán tonna línubátur, færði að landi 1.729 tonn af blönduðum afla á síðasta fiskveiðiári. Vilja menn fyrir vestan meina að um heimsmet sé að ræða í aflabrögðum báts í þessum stærðarflokki.

Gamla heimsmetið átti Guðmundur Einarsson ÍS sem er í eigu sama útgerðarfélags, Jakobs Valgeirs ehf.  Guðmundur Einarsson landaði 1.500 tonnum á fiskveiðiárinu 2005/2006 en bætti það met reyndar í ár og landaði tæpum 1.600 tonnum.

Sigurgeir S. Þórarinsson, skipstjóri á Sirrý, sem var á landleið þegar Fréttablaðið hafði samband um borð, segir að þrír sjómenn séu um tvær fastar stöður um borð.

„Við erum fjóra daga á sjó og eigum svo tvo daga í frí. Báturinn er hins vegar aldrei hvíldur.“ Sirrý ÍS fór í 297 róðra á fiskveiðiárinu.

Sigurgeir þakkar árangurinn góðu fólki, bæði til sjós og lands, en átta sjá um að beita fyrir Sirrý. Aflinn er að uppistöðu góðfiskur, þorskur og ýsa, sem unninn er í landvinnslu Jakobs Valgeirs.

Sigurgeir segir það ekki fyrir hvern sem er að færa vel á annað þúsund tonn að landi við þriðja mann. „Við erum góðir í bakinu, má segja.“

Um heimsmetið segir Sigurgeir að nú hafi aðrir smábátasjómenn verðugt verkefni. „Nú vita þessir karlar að hverju er að stefna. Ég slæ þetta met alla vega ekki sjálfur.“ - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×