Lífið

Hjúskaparlögin laða lesbíur til landsins

Ánægðar með að geta talað um sig sem hjón líkt og gagnkynhneigðir.
Ánægðar með að geta talað um sig sem hjón líkt og gagnkynhneigðir.
„Nokkrum vikum áður en við komum til landsins voru breytt hjúskaparlög samþykkt á Íslandi. Þar sem tengsl mín við landið eru mér mjög mikilvæg langaði okkur mikið að láta gefa okkur saman þar,“ segir hin bandaríska Barbara L. Lawson.

Barbara gekk að eiga unnustu sína, Julie Layne, hjá sýslumanninum á Akureyri þriðjudaginn 13. júlí. Breytt hjúskaparlög eru augljóslega byrjuð að hafa áhrif, en eins og Fréttablaðið greindi frá í gær þá eru aðrar Bandaríkjakonur, þær Edie Hoffmann og Jen Stewart, væntanlegar til landsins í ágúst og stefna þær á að gifta sig á Hinsegin dögum í Reykjavík.

Lawson og Layne hafa verið saman í 18 ár. Þær voru staddar hér á landi í brúðkaupsveislu hálfbróður Lawson, Gunnari Sigurfinnssyni, og eiginkonu hans, Maríu Lóu Friðjónsdóttur. Gunnar og María Lóa aðstoðuðu parið við að skipuleggja brúðkaupið óvænta og hjálpuðu til við að redda gögnum og öðru slíku. Þegar Lawson og Layne komu til landsins voru þær ekki enn búnar að fá staðfestingu á því að af þessu yrði. Að morgni þriðjudagsins 13. júlí fengu þær svo svör hjá sýslumanninum á Akureyri um að hann gæti gefið þær saman ef þær myndu koma til hans á næsta hálftímanum.

„Við kipptum hringum og skjölum og stukkum af stað. Fólkið stökk út í garð og tíndi villt blóm til að búa til blómvendi handa okkur og unga fólkið henti hrísgrjónum yfir okkur þegar við löbbuðum út úr húsinu,“ segir Lawson. „Það að geta loksins sagt að við séum hjón skiptir okkur miklu máli.“ - ls





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.