Enski boltinn

Pulis hrósar Eið Smára - ætlar að nota hann á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tony Pulis, stjóri Stoke, hefur ekki notað Eið Smára Guðjohnsen í síðustu sex leikjum liðsins en stjórinn hefur nú fullvissað íslenska landsliðsmanninn að hann hafi hlutverk handa honum í Stoke-liðinu á þessari leiktíð.

Eiður Smári kom síðast við sögu hjá Stoke þegar hann kom inn á sem varamaður á 57. mínútu í 3-1 tapi fyrir west Ham í enska deildarbikarnum 27. október síðastliðinn. Það eru því liðnir 36 dagar síðan Eiður Smári spilaði fyrir Stoke.

„Eiður missti af undirbúningstímabilinu og það hefur verið mikið í gangi á bak við tjöldin. Eiður þarf meiri tíma en ég hef enn trú á því að hann spili hlutverk hjá liðinu á þessu tímabili," sagði Tony Pulis.

Eiður Smári Guðjohnsen og Kenwyne Jones.Mynd/Nordic Photos/Getty
„Eiður er búinn að vera frábær síðan að hann kom. Hann er góður í hóp og kemur vel saman við aðra leikmenn í liðinu. Ástæðan fyrir því að hann er ekki búinn að spila er að Ricardo Fuller er búinn að vera frábær, þeir Kenwyne Jones og Tuncay hafa spilað vel og Jon Walters er búiinn að standa sig betur en allir áttu von á," sagði Pulis.

„Ef þessir leikmenn hefðu ekki staðið sig svona vel þá hefði Eiður fengið fleiri tækifæri. Það er mikil samkeppni í liðinu eins og á að vera í góðu úrvalsdeildarliði og Eiður verður að sætta sig við það," sagði Pulis.

Pulis segir að Eiður Smári verði að bíða þolinmóður eftir sínu tækifæri alveg eins og markvörðurinn Asmir Begovic.

„Hann þarf að fá nokkra leiki í röð og tækifæri til að spila reglulega alveg eins og staðan var fyrir Asmir Begovic á sínum tíma. Asmir var vonsvikinn með fá tækifæri sem hann fékk í fyrstu en svo fékk hann tækifærið, nýtti það vel og nú staðan hans," sagði Pulis.

Eiður Smári í leik með landsliðinu á móti Portúgal.Mynd/Vilhelm

Eiður Smári hefur komið inn á sem varamaður í fimm leikjum á tímabilinu en hefur ekki enn fengið tækifæri í byrjunarliðinu þrátt fyrir að það sé komið fram í desember.

Eiður Smári hefur spilaði í 131 mínútu í Stoke-búningnum, 69 mínútur í ensku úrvalsdeildinni og í 62 mínútur í enska deildarbikarnum. Eiður Smári hefur sem dæmi spilað í 154 mínútur með íslenska landsliðinu á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×