Viðskipti erlent

Gullspákaupmenn hegða sér eins og merðir á spítti

Gulleignir fjárfesta og spákaupmanna eru orðnar á stærð við gullforða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Peter Warren forstjóri fjárfestingarsjóðsins Warren Capital segir að þetta sé staða sem geti skapað mikinn óróleika á markaðinum þar sem margir af spákaupmönnunum hegði sér eins og merðir á spítti.

Fjallað er um málið á vefsíðunni e24.no. Þar segir að útreikningar Warren sýni að Bandaríkjamenn eigi enn mesta gullforða heimsins eða 8.100 tonn. Næst á eftir kemur Þýskaland með 3.400 tonn og þar næst Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með 2.900 tonn. Spákaupmenn og fjárfestar eigi síðan samanlagt um 2.800 til 2.900 tonn af gulli.

„Það er ekki gott að hafa svona órólega farþega með í bátnum," segir Warren. „Spákaupmennirnir hegða sér líkt og merðir á spítti. Slíka farþega viltu ekki hafa með í för."

Warren Capital er einn þeirra sjóða sem veðjað hafa á verðhækkanir á gulli árum saman. Nú hefur Peter Warren losað sjóðinn úr öllum gullkaupum sínum þar sem hann telur bólu í myndun á gullmarkaðinum.

Eins og kunnugt er af fréttum hefur heimsmarkaðsverð á gulli hækkað gífurlega á undanförnum mánuðum og árum. Verðið fór í 500 dollara á únsna árið 2005, náði 700 dollurum árið 2006 og fór í fyrsta sinn yfir 1.000 dollara árið 2008. Í þessum mánuði fór verðið í 1.386 dollara á únsuna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×