Enski boltinn

24 ára franskur vængmaður á óskalista Liverpool í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sylvain Marveaux í leik með Stade Rennais.
Sylvain Marveaux í leik með Stade Rennais. Mynd/AFP

Hið virta franska blað France Football skrifar um það í dag að Liverpool ætli í sumar að ná í Sylvain Marveaux, leikmann Stade Rennais en hann verður samningslaus eftir þetta tímabil.

Þessi 24 ára gamli vængmaður hefur ekki vilja framlengja samning sinn við Stade Rennais þar sem hann hefur spilað frá árinu 2006. Marveaux hefur skorað 1 mark og átt 2 stoðsendingar í 10 leikjum með Stade Rennais á þessari leiktíð.

Damien Comolli, yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool, hefur mikinn áhuga á leikmanninum en síðasta sumar sýndu Mónakó, Paris Saint-Germain og Olympique de Marseille öll áhuga á að fá Marveaux til sín.

Stade Rennais vildi ekki selja en leikmaðurinn hefur hafnað öllum samningstilboðum og það er nokkuð ljóst að hann yfirgefur félagið í sumar.



Sylvain Marveaux, leikmaður Stade RennaisMynd/AFP
Samkvæmt heimildum franska blaðsins er Liverpool tilbúið að hafa samband við leikmanninn í ársbyrjun með það í huga að ganga samning fyrirfram en Stade Rennais gæti þó gripið til þess ráðs að selja hann í janúar til þess að fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Marveaux sló í gegn á síðasta tímabili þegar hann var með 10 mörk og 5 stoðsendingar í 35 leikjum með Rennes. Sylvain Marveaux hefur leikið fyrir franska landsliðið en hann skoraði 4 mörk í 11 leikjum með 21 árs landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×