Innlent

Andrés segir ummæli Daniels Hannan „hlægileg"

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna.
Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna.

Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, segir að ummæli Daniels Hannan um að hagsmunum Breta væri betur borgið í EES-samstarfinu en í Evrópusambandinu algjörlega hlægileg. Hann segir að Hannan sé eindreginn ESB-anstæðingur og setja þurfi skoðanir hans á Evrópumálum í það samhengi.

Bretinn Daniel Hannan þingmaður á Evrópuþinginu lýsti þeirri skoðun í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hagsmunum Íslands væri miklu betur borgið utan Evrópusambandsins. Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna sem berjast fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið, segir að Daniel Hannan sé eindreginn andstæðingur ESB og því verði að skoða ummæli hans í því ljósi.

„Ég myndi nú ekki taka boðskap Daniel Hannan sem einhvern algildan sannleika í þessu máli. Hann er þekktur Evrópuandstæðingur og er í útjaðri Íhaldsflokksins. Hann hefur m.a verið settur niður af flokknum í Bretlandi fyrir ýmis ummæli sín, m.a um breska heilbrigðiskerfið og annað," segir Andrés.

Daniel Hannan sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að þingmenn Evrópuþingsins héldu að Íslendingar væru svo örvæntingarfullir vegna ástandsins hér á landi að þeir myndu í raun og veru samþykkja hvaða aðildarskilmála sem er að loknum aðlögunarviðræðum.

„Ég skil nú eiginlega ekki þessi ummæli og þau dæma sig eiginlega sjálf. Langflestar þjóðir sem hafa gengið inn í Evrópusambandið hafa gengið inn í kreppu og menn hafa séð ákveðna leið og lausn að ganga í Evrópusambandið."

En erum við ekki í miklu betri samningsstöðu þegar við erum búin að rétta okkur af hérna heima? „Jú, það má segja það, enda höfum við í Evrópusamtökunum og Evrópusinnar almennt alltaf haldið því fram að við eigum að semja þegar við erum í styrkleika," segir Andrés.

Daniel Hannan sagðist gjarnan vilja skipta á þeim skilmálum sem Bretar hefðu sem fullgildir meðlimir í ESB og þeim skilmálum sem Íslendingar hefðu í EES-samstarfinu.

„Þetta er í raun og veru mjög undarleg ummæli frá þingmanni sem á að vita betur. (...) Þetta eru á margan hátt eiginlega hlægileg ummæli," segir Andrés.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×