Innlent

Mál Götusmiðjunnar skoðað í félagsmálaráðuneytinu

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra segir að ráðuneytið fylgist grannt með þeim ágreiningi sem nú er uppi á milli Guðmundar Týs Þórarinssonar forstöðumanns í Götusmiðjunni og Braga Guðbrandssonar hjá Barnaverndarstofu. Guðmundur Týr krafðist þess í dag að félagsmálaráðuneytið kæmi að málinu.

Í tilkynningu sem Guðmundur sendi í dag segir hann skýrt, samkvæmt ákvæðum reglugerðar um rekstur meðferðarheimila, að ágreiningi á milli Barnaverndarsofu og rekstraraðila slíkra heimila skuli skotið til viðkomandi ráðuneytis. „Það hefur verið gert með erindi sem lögfræðingur minn sendi Þorbjörgu Benediktsdóttur, lögfræðingi hjá Félags- og tryggingamálaráðuneytinu, í gær. Er ítrekuð krafa mín um aðkomu ráðuneytisins að málinu sem og að lögregla hefji rannsókn á hinum meintu hótunum sem ég á að hafa látið falla í garð ungmennanna, skjólstæðinga Götusmiðjunnar."

Árni Páll staðfestir að erindi Guðmundar hafi borist ráðuneytinu og segist hann gera ráð fyrir því að málið verði kannað strax eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×