Handbolti

Umfjöllun: Ísland vann stórsigur á Portúgal

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðjón Valur fór mikinn í kvöld.
Guðjón Valur fór mikinn í kvöld. Nordic Photos / Bongarts

Ísland vann öruggan sigur á Portúgal, 37-27, þegar liðin mættust í vináttulandsleik í Laugardalshöll í kvöld. Þetta var síðasti heimaleikur strákanna okkar fyrir EM í Austurríki.

Leikur íslenska liðsins var mjög kaflaskiptur og það var ekki fyrr en á síðustu 20 mínútum leiksins að liðið sýndi almennilega hvað í því býr og keyrði yfir gestina frá Portúgal.

Fram að því íslenska liðið á köflum í stökustu vandræðum með ágætt lið Portúgals. Það var greinilegt að hinn sænski Mats Olsson hefur komið góðu skipulagi á leik portúgalska liðsins.

Ísland fékk þó ítrekað tækifæri til að keyra andstæðinginn í kaf en fór á köflum afar illa með færin sín, sérstaklega í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn var oft ágætur en þó gerðist það allt of oft að gestirnir galopnuðu íslensku vörnina með lúmskum línusendingum.

Það var einnig áhyggjuefni hvað markvarslan var slök framan af. Björgvin Páll Gústavsson byrjaði inn á en var skipt af velli um miðjan fyrri hálfleik þegar hann hafði aðeins varið þrjú skot.

Hreiðar Levý Guðmundsson leysti hann af hólmi og það var ekki fyrr en á síðasta korterinu að hann sýndi hvað í honum býr. Þá skellti hann í lás og varði oft glæsilega.

En rétt eins og í Þýskalandi þá sigldi íslenska liðið fram úr á lokakafla leiksins. Strákarnir virðast hrifnir af því að geyma það besta fram á síðustu stundu og þeir sýndu í kvöld að þegar þeir eru upp á sitt besta fær þá fátt stöðvað.

Guðjón Valur Sigurðsson bar af í sóknarleik íslenska liðsins og var einn af fáum sem nýttu færin sín ágætlega. Snorri Steinn átti ágæta innkomu inn á milli og sérstaklega gaman var að sjá hvað hinir reynsluminni nýttu mínúturnar sem þeir fengu undir lok leiksins vel.

Ísland - Portúgal 37-27 (17-15)



Mörk Íslands (skot): Guðjón Valur Sigurðsson 9 (12), Snorri Steinn Guðjónsson 7/4 (9/5), Róbert Gunnarsson 4 (4), Alexander Petersson 4 (8), Sturla Ásgeirsson 3 (3), Ólafur Stefánsson 3 (6), Ásgeir Örn Hallgrímsson 2 (4), Logi Geirsson 1 (1), Ólafur Guðmundsson 1 (2), Vignir Svavarsson 1 (3), Rúnar Kárason 1 (3), Aron Pálmarsson 1 (5).

Varin skot: Hreiðar Guðmundsson 9 (25/1, 36%), Björgvin Páll Gústavsson 3 (14, 21%).

Hraðaupphlaup: 12 (Róbert 3, Guðjón Valur 2, Sturla 2, Logi 1, Ásgeir Örn 1, Snorri Steinn 1, Ólafur 1, Alexander 1).

Fiskuð víti: 5 (Vignir 2, Aron 1, Sturla 1, Róbert 1).

Utan vallar: 4 mínútur.

Mörk Portúgals (skot): Dario Andrade 6/1 (7/1), Jose Costa 5 (6), Carlos Carneiro 5 (7), Tiago Rocha 4 (5), Pedro Solha 4 (7), David Tavares 1 (3), Nuno Pereira 1 (3), Fabio Magalhaes 1 (4), Bosko Bjelanovic (1), Luis Bogas (1), Inacio Carmo (2), Jorge Sousa (2), Claudio Pedroso (3).

Varin skot: Hugo Figueira 13 (38/2, 34%), Hugo Laurentino 6/1 (18/3, 33%).

Hraðaupphlaup: 13 (Solha 4, Andrade 4, Carneiro 3, Costa 2).

Fiskuð víti: 1 (Bjelanovic 1).

Utan vallar: 4 mínútur.

Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson, góðir og oftast mjög sanngjarnir.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×