Lífið

Íslandsvinurinn Guru látinn

Guru ritaði yfirlýsingu á banabeðinu þar sem hann hnýtir í DJ Premier.
Guru ritaði yfirlýsingu á banabeðinu þar sem hann hnýtir í DJ Premier.
Rapparinn Guru lést í gær. Hann greindist með krabbamein fyrir um ári síðan og fór í fjölda aðgerða. Fyrir um mánuði síðan fékk hann hjartaáfall og náði sér ekki eftir það.

Guru er einn virtasti rappari allra tíma. Hann náði vinsældum í dúettinum Gang Starr á níunda áratugnum með félaga sínum DJ Premier. Hljómsveitin gaf út fjölda platna en frægust þeirra er Moment of Truth frá 1998. Guru gerði einnig vel þekktar plötur undir nafninu Jazzmatazz þar sem hann fékk goðsagnir úr djassheiminum til að spila með sér.

Guru kom til Íslands og hélt tónleika á Gauki á Stöng 1. desember árið 2001.

Guru ritaði yfirlýsingu fyrir dauða sinn sem hann lét í hendur samstarfsaðila síns, Solar. Þar þakkar hann öllum velgjörðamönnum, fjölskyldu og vinum.

Einnig kemur í ljós að hann og DJ Premier áttu í illvígum deilum. Guru ritaði á banabeðinu að hann vilji ekki að Premier komi nálægt nafni hans á nokkurn hátt og segist hafa lagt þessar línur fyrir lögfræðinga sína.

"Ég hef ekki haft samband við hann í sjö ár og mun ekki hafa samband við hann í dauðanum," segir Guru og bætir við að Solar viti allt um baksögu þessa máls.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×