Fótbolti

Ólafur: Aldrei séð aðra eins rigningu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Það styttist í Evrópuleik Motherwell og Breiðabliks sem fram fer í Skotlandi í kvöld. Þetta er fyrri leikur liðanna í 2. umferð Evrópudeildar UEFA.

Veðrið í Skotlandi hefur verið afar leiðinlegt síðustu daga, hávaðarok og rigning.

Veðrið er talsvert betra í dag eins og þeir sem hafa fylgst með Opna breska meistaramótinu í golfi hafa séð.

Leikur Blika í kvöld fer fram í um klukkutíma fjarlægð frá St. Andrews-golfvellinum.

"Hann á vist að hanga þurr í kvöld en ég hef aldrei kynnst annarri eins rigningu og síðustu tvo daga. Það var varla hægt að fara út úr húsi og hvað þá æfa," sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Blika, við Vísi í dag en hann sat þá límdur fyrir framan sjónvarpið að fylgjast með golfmótinu.

"Við erum klárir í slaginn og allir heilir nema Olgeir [Sigurgeirsson] sem er ekki alveg upp á sitt besta. Það er reiknað með á milli 4.000-6.000 áhorfendum og þetta verður vonandi gaman."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×