Innlent

Simmi og Jói seldu þúsund hamborgara á dag

Jói segir það stóran kost hversu ólíkir þeir Simmi eru
Jói segir það stóran kost hversu ólíkir þeir Simmi eru
„Einn eftirmiðdaginn hringdi ég í Jóa og sagði honum að við værum að fara að opna hamborgarastað. Í fyrstu fannst honum það ekki ráðlegt, enda er hann jarðbundinn maður að eðlisfari. Ég held að ég hafi selt honum þetta samt á 40 mínútum þar sem ég lagði mig fram við að sýna honum kosti þess að segja upp trausti starfi og leggja út í óvissuna með mér. Vel að merkja, konurnar okkar voru báðar ófrískar á þessum tíma," segir Sigmar Vilhjálmsson um hvernig hann fékk Jóhannes Ásbjörnsson til að opna með sér Hamborgarafabrikkuna.

Þeir félagar eru betur þekktir sem tvíeykið Simmi&Jói og voru saman verðlaunaðir af Ímark sem markaðsmenn ársins nýverið. Rætt er við þá í nýjasta hefti tímaritsins Frjálsrar verslunar.

Hamborgarafabrikkan var opnuð í mars og á fyrstu sex mánuðunum seldu þeir 180 þúsund hamborgara. Það jafngildir því að þeir hafi selt um þúsund hamborgara á dag þennan tíma. Veitingastaðurinn er nú orðinn einn sá vinsælasti á landinu og eiga þeir hann svo til skuldlausan.

„Aldrei áður hefur veitingahús á Íslandi verið opnað með eins miklu fyrirframplöggi. Þáttur þeirra á Stöð 2 undirbjó jarðveginn vel fyrir opnun staðarins og það fór ekki framhjá neinum að þeir væru að opna nýjan veitingastað. Á undirbúningstímanum voru þeir ennfremur í viðtölum í blöðum og útvarpi," segir í Frjálsri verslun.

Leiðir Simma og Jóa lágu saman árið 1998, fyrir rúmum áratug, og hafa þeir síðan unnið saman sem skemmtikraftar, í sjónvarpi og útvarpi. Þeir slógu í gegn sem kynnar í Idol á Stöð 2 hér um árið og halda nú úti útvarpsþætti á Bylgjunni. Utan þess tekur Hamborgarafabrikkan, og fjölskyldan, tíma þeirra allan.

Jóhannes segir að viðurkenning Ímark hafi komið þeim skemmtilega á óvart. „Markaðssetningin er einfaldlega umbúðirnar utan um vöruna sem þú býðir og á að endurspegla hana ásamt því að byggja upp ákveðna ímynd og skapa væntingar og stemningu," segir hann.

Að mati Jóhannesar er það einn helsti kostur samstarfs þeirra hversu ólíkir þeir tveir eru. „Ég er einbirni og Simmi kemur úr hópi sex bræðra, ég borgarbarn og Simmi utan af landi," segir hann.

Ítarlegt viðtal má lesa við þá Simma og Jóa í Frjálsri verslun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×