Innlent

Róttæk öfl sögð á bak við menningarsetur múslima

Andri Ólafsson skrifar
Á Íslandi eru starfrækt tvö félög múslima. Það er annars vegar Félag múslima á Íslandi, sem hefur verið starfrækt í 13 ár en þar er Salman Tamimi í forsvari fyrir um 370 múslima. Hins vegar er það menningarsetur múslima, sem stofnað var fyrir tveimur árum, og telur um 250 manns.

Í menningarsetri múslima eru einstaklingar sem Salman Tamimi segist hafi rekið úr sínu félagi fyrir að hafa brotið lög félagsins um öfga, ofstæki og yfirgang í nafni trúarbragða. Þessir sömu aðilar eru í forsvari fyrir hópi fjárfesta sem fest hafa kaup á Ýmishúsinu. Í húsinu verður menningarsetur fyrir múslima, bænaaðstaða, barnaskóli og fleira.

Fjárfestarnir á bak við þessi 250 milljón króna kaup eru erlendir. Þeir heita Hussein Al-Daoudi, Maryam Moe og Sulaiman Abdullah Alshiddi. Það eru tengsl Hussein Al-Daoudi við öfgafulla múslima sem sett hafa verið spurningamerki við.

Hussein Al-Daoudi er skólastjóri Al-Salam einkaskólans í Svíþjóð sem gagnrýndur hefur verið fyrir að þiggja fjárframlög frá íslömskum trúboðasamtökum i Saudi Arabíu. Þau eru nátengd Al-Haramein samtökunum sem eru á lista öryggisráðs Sameinu þjóðanna yfir hryðjuverkasamtök.

Bandarísk yfirvöld telja sig hafa upplýsingar um að Al-Haramein hafi fjármagnað hryðjuverkahópa, á borð við Al-Kaída. 

Salman Tamimi hefur lýst yfir áhyggjum af að Ýmishúsið og menningarmiðstöð múslima, sem þar á að vera, sé fjármagnað með þessum hætti. Hann vill að starf múslima á Íslandi séu á íslenskum forsendum, ekki Saudi-arabískum.

Formaður félags menningarseturs múslima segir að fjárfestarnir þrír leggi eingöngu til peninga og muni ekki koma að starfseminni sjálfri. Hann vísar því á bug að fjárfestarnir hafi eitthvað með hryðjuverk að gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×