Handbolti

Þorbjörn og Siggi Sveins: Skiptum Icesave út fyrir EM í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðið hitar hér upp fyrir æfingaleikinn á móti Portúgal.
Íslenska landsliðið hitar hér upp fyrir æfingaleikinn á móti Portúgal. Mynd/Anton

Þorbjörn Jensson, fyrrum landsliðsmaður og landsliðsþjálfari og Sigurður Valur Sveinsson, fyrrum landsliðsmaður, voru báðir gestir í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun þar sem þeir ræddu um íslenska handboltalandsliðið sem er á leiðinni á EM í Austurríki. Þeir félagar eru báðir bjartsýnir á gengi liðsins og spá liðinu inn í undanúrslit.

„Þeir eru búnir að vera svo lengi saman að þeir vita alveg hvað þeir geta," sagði Sigurður Valur Sveinsson og bætti við:

„Fyrsti leikurinn á móti Serbum er lykillinn að þessu. Ef við vinnum hann þá er úrslitaleikur á móti Dönum í lokaleiknum um hvort við förum í milliriðillinn með fjögur stig," sagði Sigurður.

„Það hefur verið þannig í gegnum tíðina að það hefur hentað okkur ágætlega þessi handbolti sem Júgóslavar spila. Við vorum oft að vinna þá þegar þeir voru hvað sterkastir. Þeir passa okkur mjög vel en við gátum síðan aldrei unnið lið eins og Rússland og Svíþjóð," sagði Þorbjörn og bætti við:

„Ég held að við vinnum Serba og að lykilleikurinn verði Danaleikurinn," sagði Þorbjörn.

„Ef við kíkjum á áframhaldið þá lenda þeir hugsanlega á móti Króötum, Rússum og Norðmönnum. Við eigum mikla möguleika á móti Rússum, Norðmenn gætu orðið erfiðir og svo Króatarnir ennþá erfiðari. Ég er mjög bjartsýnn og ég hald að við verðum í fyrsta til fjórða sæti," sagði Þorbjörn.

„Við vorum ekkert rosalega góðir í þessum æfingaleikjum og það sterka við þetta er að við vorum að vinna þessa leiki þrátt fyrir að eiga ekkert hundrað prósent leik. Það sýnir bara hvað við erum orðnir góðir," sagði Sigurður og Þorbjörn tók undir það.

„Við vorum ekkert æðislegir á móti Portúgal en við unnum samt. Það er styrkur að vera ekkert að spila neina stórleiki en vera alltaf að vinna," sagði Þorbjörn.

„Ég hef engar áhyggjur af sókninni því við skorum alltaf meira en 30 mörk. Ég hef því meiri áhyggjur af varnarleiknum og markvörslunni sem hefur við rokkandi þótt að Björgvin hafi verið að standa sig ágætlega," sagði Sigurður.

„Eftir því sem við getum fengið á okkur færri vörn því auðveldara er að vinna. Það gefur augaleið. Ég held að vörnin okkar geti alltaf haldið mótherjanum undir 30 mörkum og ef við erum alltaf að skora 30 mörk þá ætti þetta að geta gengið upp," segir Þorbjörn.

„Við förum í undanúrslit, það er ljóst. Ég held að þetta sé kjörið tækifæri fyrir þjóðina að leggjast í handboltann og taka sér frí frá Icesave," sagði Sigurður og Þorbjörn tók undir það.

„Við eigum að gleyma Icesave og horfa á handbolta," sagði Þorbjörn að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×