Handbolti

Guðjón Valur: Ég fæ bara gæsahúð að tala um þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson er oft í stuði í leikjum landsliðsins í Laugardalshöllinni.
Guðjón Valur Sigurðsson er oft í stuði í leikjum landsliðsins í Laugardalshöllinni. Mynd/Arnþór
Landsliðsmaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson treystir á það eins og aðrir leikmenn liðsins að fá góða kveðju frá íslensku þjóðinni í síðasta heimaleik liðsins fyrir EM sem verður á móti Portúgal í Laugardalshöllinni klukkan 20.15 í kvöld.

„Það sem hefur verið svo gaman undanfarin ár er að fólk er meðvitaðra um okkur og það kemur líka þegar það eru æfingaleikir," segir Guðjón Valur og bætir við:

„Það er miklu meira farið að syngja þjóðsönginn og 17. júní leikirnir hafa ýtt undir þjóðarstoltið. Það er einstakt að spila með landsliðinu þegar þú ert með fulla stúku og fulla höll og allir eru að syngja saman. Ég fæ bara gæsahúð að tala um þetta," segir Guðjón Valur.

Guðjón Valur hefur oft verið í stuði í leikjum íslenska landsliðsins í Laugardalshöllinni en hann hefur skorað fimm mörk eða fleira í síðustu níu landsleikjum sínum í Höllinni.

„Það er alltaf gaman að koma heima og æfa á Íslandi. Hápunkturinn er síðan þegar við náum að spila landsleiki hérna. Það skemmtilegasta sem maður gerir er að vera í Höllinni og finna fyrir stuðningnum þar. Höllin okkar er ekki stór en það getur myndast mjög mikill hávaði þar þegar hún er full og fólkið er í góðu skapi," segir Guðjón Valur.

Guðjón Valur hefur skorað 62 mörk í síðustu 9 landsleikjum sínum í Laugardalshöllinni sem gera 6,9 mörk að meðaltali í leik en það heyrist aldrei meira í íslenskum áhorfendum þegar Guðjón Valur skorað hraðaupphlaupsmörkin sín á leifturhraða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×