Viðskipti innlent

Mótkrafa frestar gagnaöflun

Jón Ásgeir og Ingibjörg
Jón Ásgeir og Ingibjörg Mynd/Vilhelm Gunnarsson

„Þessu hefur verið frestað fram á haustið," segir Kim J. Landsman, lögmaður fimm af sex fyrrverandi eigendum og stjórnendum Glitnis, sem slitastjórn Glitnis hefur stefnt fyrir dómstól í New York.

Þann 10. september eiga lögmenn Glitnis að gera skriflega grein fyrir afstöðu sinni til frávísunarkröfu hinna stefndu, en lögmenn hinna stefndu leggja síðan fram svar sitt þann 8. október. Eftir það ákveður dómari hvenær hann vill hlusta á málflutning beggja aðila.

Í fréttum í gær kom fram að Jón Ásgeir Jóhannesson og aðrir fyrrverandi stjórnendur og eigendur Glitnis, sem stefnt hefur verið í málinu, þyrftu að mæta til New York í lok mánaðarins til þess að veita ítarlegar upplýsingar og leggja fram gögn um umsvif sín vestanhafs.

Landsman segir að þessi upplýsingaöflun stefnendanna hafi frestast vegna mótkröfu hinna stefndu, sem fara fram á að dómstóllinn taki fyrst afstöðu til frávísunarkröfunnar. „Að okkar mati á frávísunarkrafan að vera nógu skýr þannig að ekki þurfi að afla frekari gagna," segir Landsman.- gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×