Innlent

Segir ekkert út af borðinu

Boðar samráð Fulltrúar stjórnvalda, fjármálafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila munu funda um niðurstöður sérfræðingahópsins í dag.Fréttablaðið/GVA
Boðar samráð Fulltrúar stjórnvalda, fjármálafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila munu funda um niðurstöður sérfræðingahópsins í dag.Fréttablaðið/GVA

Mikilvægt er að niðurstöður sérfræðingahóps sem kortlagt hefur skuldavanda heimilanna verði grunnur að samráði sem leiði til þess að varanleg lausn finnist á vandanum segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Sérfræðingahópurinn telur að um 10.700 heimili séu í skuldavanda vegna fasteignalána. Hópurinn reiknaði út áhrifin af ýmsum leiðum til að leysa úr vandanum.

„Þetta eru mjög athyglisverðar niðurstöður sem þarna koma fram, nú er verkefnið að vinna úr þessum niðurstöðum,“ segir Jóhanna.

„Það er ekkert út af borðinu,“ segir Jóhanna. Haldinn verður samráðsfundur með fulltrúum fjármálastofnanna og öðrum hagsmunaaðilum í dag til að ræða niðurstöður sérfræðingahópsins.

Hún segir ljóst að stór hópur fólks sé í skuldavanda, og einhver hópur sé í svo miklum vanda að vart verði hægt að grípa til aðgerða til að sá hluti haldi heimilum sínum. Sá hluti gæti verið á bilinu þrjú þúsund til fimm þúsund manns, segir Jóhanna. Koma verði til móts við þennan hóp með félagslega kerfinu og kaupleigukerfi svo fólk þurfi ekki að flytja af heimilum sínum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með niðurstöðu sérfræðinganna.

Hann bendir á að niðurstaðan taki til dæmis ekki tillit til þess kostnaðar sem óhjákvæmilega verði til verði ekkert að gert til að koma til móts við heimili í skuldavanda. Svo virðist sem reiknað sé með því að allar skuldir muni innheimtast að fullu, sem sé fjarri því að vera veruleikinn.

Sigmundur Davíð segist þeirrar skoðunar að almenn niðurfærsla sé enn heppilegasta leiðin til að koma til móts við fólk í skuldavanda, en til viðbótar þurfi sértækar aðgerðir fyrir þá sem niðurfærslan dugi ekki.

Einn þeirra sem sæti átti í sérfræðingahópnum, Marinó G. Njálsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, ætlar að senda frá sér sérálit þar sem meðal annars verða birtar upplýsingar sem ekki koma fram í skýrslu sérfræðingahópsins.

Marinó segir að skoða verði hvað aðgerðirnar nái til margra heimila, ekki bara hversu mörgum af þeim sem séu í brýnasta vandanum þær hjálpi. Hann segir þau neysluviðmið sem útreikningarnir miði við of lág, vandinn sé því víðtækari en skýrslan gefi til kynna.

„Ef eitthvað er hefur niðurstaðan styrkt mig í þeirri skoðun minni að flöt niðurfærsla sé besta leiðin,“ segir Marinó. Hann segir að skoða verði heildaráhrifin af slíkri aðgerð, ekki eingöngu áhrifin á þá sem séu í verstri stöðu.- bj /




Fleiri fréttir

Sjá meira


×